Notkunarskilmálar

Á eftir stuttri lýsingu á þeirri þjónustu sem veitt er í gegnum vefinn nagli.is eru hér að neðan útlistaðir þeir skilmálar sem eiga við um aðgang þinn og notkun á nagli.is sem íslenska einkahlutafélagið Naglinn vefþjónusta ehf. (Naglinn), kt. 481299-2769, á og rekur.

Um þjónustu Nagli.is

Þjónustan á nagli.is er miðuð að verkum sem unnin eru í verktöku, sér í lagi er kemur að viðhaldi og viðgerðum á mannvirkjum. Notendur geta þó notað þjónustuna til að koma á samningum um verktöku í tengslum við hvers konar verk.

Birting verks á nagli.is felur í sér óskuldbindandi beiðni kaupanda um að bjóðendur sendi inn óskuldbindandi tilboð. Bindandi samningur aðila á milli telst kominn á er kaupandi hefur boðið seljanda ákveðið verk og seljandi hefur staðfest að hann vilji standa við tilboð sitt í verkið. Birting verks á nagli.is felur ekki í sér útboð í skilningi laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða.

1. Skilgreiningar

Bjóðandi: Skráður notandi sem sendir tilboð í ákveðið verk sem birt hefur verið á nagli.is

Einkaskilaboð: Skilaboð á milli tveggja notenda á nagli.is, sem aðeins eru sýnileg þeim.

Gestur: Aðili sem kemur inn á vefsvæðið nagli.is og er ekki skráður notandi.

Kaupandi: Skráður notandi sem hefur birt verk á nagli.is.

Notandi: Aðili sem skráir sig inn með notendanafni og lykilorði á nagli.is og getur í framhaldi þess nýtt þær þjónustur sem í boði eru á nagli.is.

Verkskilaboð: Skilaboð sem send eru frá verksíðu og birtast kaupanda og öllum bjóðendum.

Seljandi: Skráður notandi sem gengið hefur inn í samning við kaupanda um framkvæmd á ákveðnu verk á grundvelli verklýsingar sem kaupandi birti á nagli.is og seljandi sendi inn tilboð í.

Verk: Verk og/eða þjónusta sem kaupandi birtir lýsingu vegna á nagli.is og óskar eftir tilboðum í frá bjóðendum. Ef samningur kemst á eru verk síðan framkvæmd af seljanda á grundvelli hans.

Verklýsing: Lýsing kaupanda á verki inn á nagli.is. Opin skilaboð teljast hluti af verklýsingu.

Þjónustan: Upplýsingar, verkfæri og virkni á vefnum nagli.is. Felur m.a. í sér ferli fyrir kaupendur og seljendur til að koma á samningum, auk þess að halda utan um samskipti, þ.m.t. samninga og önnur skjöl, ásamt því að veita aðgang að leiðum til þess að leysa ágreining.

2. Samþykki notkunarskilmála Naglans

Með því að nota þjónustuna, samþykkir þú að hlýta þessum skilmálum, hvort sem þú ert „gestur“ eða „notandi“. Orðin „þú“ og „notandi“ í öllum beygingarmyndum í þessum skilmálum vísa til gests eða notanda. Ef þú óskar eftir því að gerast notandi, eiga samskipti við aðra notendur og nýta þér þjónustuna, þá verður þú að lesa þessa skilmála og samþykkja við skráningu. Til notkunar telst m.a. skoðun, upplýsingaöflun og/eða nýting þeirrar þjónustu sem í boði er á vefsvæðinu nagli.is á hverjum tíma.
Öll notkun vefsins takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist, ásamt þeim upplýsingum og þjónustu sem boðið er upp á á hverjum tíma.

Áður en þú lest áfram er æskilegt að þú prentir út og vistir afrit af þessum skilmálum.

3. Persónuvernd

Við skráningu gerir Naglinn kröfu um vissar persónuupplýsingar notenda, s.s. nafn, kennitölu, heimilisfang og netfang. Notendur geta einnig valið að láta Naglanum í té farsímanúmer og bankaupplýsingar ef þeir kjósa.

Naglinn starfar að öllu leyti í samræmi við íslensk lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Naglinn hefur tilkynnt Persónuvernd um starfsemi sína í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

4. Aðgangur að þjónustunni og aðgangsupplýsingar þínar

Þú skilur og samþykkir að þú sért ábyrgur fyrir því að tryggja leynd lykilorðs þíns sem gerir þér mögulegt, ásamt notandanafni þínu (netfangi), að innskrá þig á nagli.is. Með því að láta Naglanum í té netfang þitt samþykkir þú að Naglinn megi, þegar nauðsyn krefur, senda þér tilkynningar á netfang þitt í tengslum við aðgang þinn að þjónustunni. Notandanafn þitt, lykilorð og aðrar samskiptaupplýsingar sem þú kannt að láta Naglanum í té (t.d. farsímanúmer fyrir SMS tilkynningar) teljast til „aðgangsupplýsinga“ þinna.

Ef þú verður á einhvern hátt var/vör við að óviðkomandi aðili hafi komist yfir aðgangsupplýsingar þínar, samþykkir þú að láta Naglann strax vita með því að senda vefstjóra tölvupóst (admin@nagli.is).

Réttur þinn til að fá aðgang að og nota þjónustuna er bundinn við þig og þér er ekki heimilt að flytja þann rétt til annars manns eða lögaðila. Þér er einungis heimilt að fá aðgang að og nota þjónustuna í löglegum tilgangi. Þér er þó heimilt að veita aðilum sem þú hefur falið umsjón og/eða eftirlit með framkvæmd verks, aðgang að upplýsingum um verkið. Í slíkum tilfellum skulu aðilar vera skráðir notendur og þú veitir þeim aðgang að upplýsingum um viðkomandi verk með því að velja valmöguleika á verksíðu viðkomandi verks á nagli.is

Aðgangur þinn að nagli.is gæti rofnað af og til af ýmsum ástæðum, t.d. vegna vélbúnaðarbilana, tæknilegra bilana, hugbúnaðarvillna, kerfisuppfærslna, eða vegna aðgerða sem Naglinn kann að kjósa að grípa til. Naglinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem slíkt kann að valda sbr. 19. gr.

5. Almennar reglur fyrir notendur á nagli.is

Með því að birta verk á nagli.is skuldbindur kaupandi sig til þess að semja við skráðan notanda á nagli.is um framkvæmd þess.
Ef kaupandi vill finna aðila til að taka að sér tiltekið verk sem birt hefur verið á nagli.is með öðrum hætti heldur en í gegnum nagli.is, þá skal hann fyrst breyta stöðu verks í „afturkallað“ áður en hann óskar eftir tilboðum utan nagli.is.

Ef að kaupanda berst tilboð vegna verks sem hann birti á nagli.is á öðru formi heldur en í gegnum nagli.is, þá skal verkkaupi hafna tilboðinu, tilkynna vefstjóra um málið (admin@nagli.is), og biðja viðkomandi bjóðanda að senda tilboðið í gegnum nagli.is.

Naglinn áskilur sér rétt til þess að grípa til hvaða aðgerða sem teljast nauðsynlegar til að bregðast við brotum gegn þessari grein skilmálanna, þ.m.t. tafarlaus lokun á aðgangi viðkomandi, sbr. 21. gr.

6. Birting verkefna og innihald

Kaupandi skal lýsa verkinu eins nákvæmlega og ítarlega og hægt er áður en hann birtir það á nagli.is. Þetta er gert til þess að veita bjóðendum sem bestan grundvöll til þess að geta reiknað út ætlaðan kostnað vegna verksins. Öll tilboð og önnur samskipti sem innihalda upphæðir, þ.e. þá fjárhæð sem bjóðandi vill fá frá kaupanda fyrir að vinna verkið, skulu eiga við um verkið í heild sinni. Tilboð skulu helst sundurliðuð í efni og vinnu með eins ítarlegum hætti og nauðsynlegt er. Æskilegt er að taka fram áætlaðan tímafjölda auk kostnaðar á einingu ef efniviður er innifalinn í tilboði.

Bannað er að birta verk sem brjóta gegn íslenskum lögum, réttindum þriðja aðila eða ákvæðum notkunarskilmála þessara. Þetta á sérstaklega við um verk sem:

 • sneiða framhjá eða eru hönnuð til þess að sneiða hjá lögbundnum skyldum sem snúa að skattgreiðslum eða öðrum opinberum gjöldum,

 • fela í sér þjónustu og/eða verk sem bannað er samkvæmt lögum að bjóða, markaðssetja eða kaupa,

 • fela í sér þjónustu og/eða verk sem sett gæti heilsu og lífi manna eða dýra í hættu, og

 • brjóta gegn hugverkaréttindum Naglans eða þriðja aðila.

Naglinn áskilur sér rétt til þess að eyða út slíkum verkum og tilkynna til yfirvalda, sbr. 21. gr.

7. Samskipti kaupanda og bjóðenda/seljenda

Fyrir hvert verk er sérstök verksíða þar sem kaupandi og bjóðendur geta sent skilaboð sín á milli, s.s. til þess að fjalla um einstaka þætti verks.

Bjóðandi getur valið um að senda annars vegar “Einkaskilaboð” sem eingöngu eru á milli hans og kaupanda og hins vegar “Verkskilaboð” sem birtast bæði kaupanda sem og öðrum bjóðendum á verksíðu.

Einkaskilaboð skal nota vegna sérstækra og persónulegra samskipta á milli bjóðanda/seljanda og kaupanda.

Verkskilaboð skal nota vegna óska um frekari upplýsingar og vegna ábendinga um villur í verklýsingu. Þau skulu sett upp með skýrum og hnitmiðuðum hætti. Persónuupplýsingar (s.s. nöfn, símanúmer, tölvupóstur o.s.frv.), tilboð, verðupplýsingar og auglýsingar má ekki birta í opnum skilaboðum.

Ef kaupanda berast opin skilaboð þá skal hann svara þeim spurningum skilmerkilega, svo lengi sem þær snúa að viðkomandi verki og það er mögulegt og eðlilegt að ætlast til svara frá honum.

Svör kaupanda við spurningum sem birtast á verksíðu verða sjálfkrafa hluti af verklýsingunni. Bjóðandi getur breytt tilboði sínu vegna nýrra framkominna upplýsinga, allt fram að þeim tíma er tilboðsfrestur rennur út.

Ekki er hægt að draga til baka verk sem birt hafa verið eða tilboð sem send hafa verið með því að tilkynna um slíkt á “verklýsing” síðunni. Til þess að gera slíkt skal nota þá möguleika sem til staðar eru á nagli.is sérstaklega í þeim tilgangi.

8. Almennar reglur um tilboðsgerð

Tilboð sem gerð eru í verk mega aðeins vera send í gegnum nagli.is og skal nota til þess þá möguleika sem til staðar eru á nagli.is sérstaklega í þeim tilgangi áður en tilboðsfrestur rennur út.

Í tilboði skal taka fram þá upphæð sem bjóðandi ætlar sér að krefja seljanda um fyrir framkvæmd á verkinu. Upphæðir skal alltaf birta með virðisaukaskatti. Þessi skylda á einnig við þó að kaupanda sé heimilt að innskatta. Aðeins er heimilt að senda inn tilboð án virðisauka ef kaupandi tekur það sérstaklega fram í verklýsingu. Bjóðendur eru að fullu ábyrgir fyrir því að þær fjárhæðir sem þeir nota sem grundvöll í útreikningum sínum séu réttar og ættu þeir, ef við á, að óska eftir vettvangsskoðun með kaupanda áður en tilboð er sent.

Það er með öllu er óheimilt að senda inn tilboð í þeim tilgangi að reyna að lækka eða komast framhjá þóknun þeirri sem Naglinn þiggur fyrir þjónustu sína. Naglinn áskilur sér rétt til þess að grípa til hvaða aðgerða sem teljast nauðsynlegar til að bregðast við brotum gegn þessari grein skilmálanna, þ.m.t. tafarlaus lokun á aðgangi viðkomandi, sbr. 21. gr.

9.Afturköllun verkefna og tilboða

Kaupandi getur afturkallað verk hvenær sem er fram til þess tíma er hann hefur samþykkt tilboð frá bjóðanda. Bjóðandi getur afturkallað tilboð sitt hvenær sem er fram til þess tíma er kaupandi hefur samþykkt tilboð hans og hann sjálfur staðfest að hann ætli að standa við það. Til þess að afturkalla birt verk eða tilboð skal nota þá möguleika sem til staðar eru á nagli.is sérstaklega í þeim tilgangi.

Birt verk og send tilboð sem hafa verið afturkölluð koma fram á stjórnborði viðkomandi notanda. Við afturköllun eru birt verk og send tilboð flokkuð sem ósend (drög). Þetta á við um verk sem hafa verið afturkölluð þó að tilboð hafi borist á grundvelli þess.

Hver og einn notandi lýsir því yfir með því að samþykkja notkunarskilmála þessa að hann veitir mögulegum gagnaðilum rétt til þess að afturkalla birt verk og tilboð í samræmi við skilmála þessa. Á sama tíma afsala notendur sér öllum rétti til skaðabóta vegna útlags kostnaðar, í formi vinnu eða annars, vegna verka og/eða tilboða sem afturkölluð eru í samræmi við ákvæði skilmála þessara. Aðilum er ekki heimilt að draga til baka birt verk eða tilboð ef samningur er kominn á milli aðila um framkvæmd verks, sbr. 10. gr.

10.Samningsgerð / Matstímabil

Kaupandi getur samþykkt tilboð áður en tilboðstíminn rennur út eða eftir að tilboðstími rennur út, svo lengi sem bjóðandi hefur ekki dregið til baka tilboð sitt eða frestur skv. tilboði er runninn út. Við samþykki fær viðkomandi bjóðandi tilkynningu þess efnis þar sem hann er beðinn um að staðfesta að hann muni standa við tilboð sitt.

Áður en bjóðanda er kleift að staðfesta að hann vilji standa við tilboð sitt verður hann að greiða þóknun til Naglans í gegnum nagli.is. Ef þóknun er ekki greidd innan þriggja daga frá því að kaupandi samþykkti tilboð bjóðanda þá fær kaupandi tilkynningu um að hann þurfi að velja annan bjóðanda vegna verksins.

Notendur samþykkja og skilja að til þess að þeir geti notað þjónustu Naglans í framhaldi þess að bjóðandi (seljandi) hefur staðfest að hann muni standa við tilboð sitt í tiltekið verk, þá þarf seljandi að greiða þóknun til Naglans og aðilar þurfa að samþykkja að notkunarskilmálar nagli.is gildi um verkið.

Er tilboðstími rennur út og kaupandi hefur ekki samþykkt tilboð, fær kaupandi tilkynningu í tölvupósti þess efnis að hann sé beðinn um að taka einhverju af þeim tilboðum sem bárust. Ef engu tilboði er tekið, fær kaupandi áminningu í tölvupósti einu sinni í viku þar sem hann er minntur á að velja tilboð ásamt afleiðingum þess ef hann velur ekki tilboð. Ef engu tilboði hefur verið tekið að þremur vikum liðnum frá því að tilboðsfrestur rann út, þá telst tilboðsumleitan lokið án þess að samningur hafi komist á. Þá birtist verkið sem ósent (drög) á stjórnborði kaupanda.

Frá þeim tíma að tilboðsfrestur rennur út hefur kaupandi 21 dag (“Matstímabil”) til þess að taka einhverju af þeim tilboðum sem bárust. Ef kaupandi fær tilboð frá bjóðanda sem honum líst vel á út frá verði og viðskiptasögu þá getur hann samþykkt tilboð hans og fer þá málsmeðferð eftir því sem greinir hér að ofan. Ef kaupandi vill ekki taka neinu af þeim tilboðum sem bárust, þá getur hann annað hvort afturkallað verk eða aðhafst ekkert í 21 dag og lokast þá verk sjálfkrafa og birtist sem ósent (drög) á stjórnborði hans. Matstímabilinu líkur sjálfkrafa ef kaupandi tekur tilboði frá bjóðanda.

11. Samningur á milli kaupanda og seljanda

Framkvæmd verks fer samkvæmt verklýsingu, tilboði seljanda og grein þessari. Í þeim tilfellum sem ákvæði stangast á, gengur verklýsing framar öðru og tilboð framar grein þessari.

11.1. Verklýsing

Á verksíðu hvers verks kemur fram verklýsing kaupanda, tilboð seljanda og samskipti þeirra á milli.

11.2. Undirverktaka

Undirverktaka er heimil, nema kaupandi taki sérstaklega fram í verklýsingu að slíkt sé óheimilt, áður en bindandi samningur kemst á skv. 10. gr. .

11.3. Aukaverk

Öll aukaverk skulu fara fram með fyrirfram samþykki kaupanda í gegnum nagli.is. Er aukaverk hefur verið samþykkt af kaupanda í gegnum nagli.is verður aukaverkið hluti af þeim samningi sem viðauki.

11.4. Lok verks

Verk telst lokið þegar kaupandi samþykkir skil á því með því að greiða umsamið verð.

11.5. Breytingar á samningi

Allar breytingar á samningum skulu gerðar í gegnum nagli.is með þeim hætti að annar samningsaðili sendir tillögu að breytingu í gegnum samskiptakerfi nagli.is, ef gagnaðili samþykkir verður breytingin aðgengileg báðum aðilum á verksíðu viðkomandi verks.

11.6. Ýmis ákvæði

Um samning aðila á milli og framkvæmd hans gilda íslensk lög.

Ágreiningsmál sem upp kunna að koma um samninginn eða framkvæmd hans munu aðilar reyna að semja um sín á milli með notkun á úrlausnarkerfi Naglans sbr. 20. gr. eða með öðrum hætti sem aðilar kjósa.

Varðandi vanefndaúrræði vísast til ákvæða laga um neytendakaup, þjónustukaup og ÍST:30, eftir því sem við á.

Takist ekki samningar milli aðila, skal mál höfðað í varnarþingi varnaraðila í samræmi við V. kafla laga um meðferð einkamála. Í þeim tilfellum sem varnarþing er utan Íslands skal mál höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

12. Einkunnakerfi

Notendur hafa möguleika á því að gefa hvor öðrum einkunn og umfjöllun þegar verki hefur verið lokið með einkunnakerfi nagli.is. Einkunn skal aðeins gefin vegna verka sem raunverulega eru unnin og skal einkunnagjöf veita sanngjarna mynd af frammistöðu viðkomandi. Ef að verki er ekki lokið með fullnægjandi hætti eða ef framkvæmd verks fer gegn samkomulagi aðila og slíkt er sök seljanda, þá er kaupanda heimilt að gefa honum neikvæða endurgjöf. Slíkt hið sama á við gagnvart seljanda í þeim tilfellum sem seljandi vanrækir að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningi aðila. Tilgangur einkunnakerfisins er að byggja upp greinargóða og sanngjarna mynd af frammistöðu og áreiðanleika viðkomandi notanda.

Til að ná fram því markmiði sem vitnað er í hér að ofan, þá ber notendum skylda til þess að gefa aðeins hlutlausa og heiðarlega einkunn. Engar athugasemdir skulu koma fram sem ganga gegn markmiðum einkunnakerfisins, en sér í lagi skulu ekki vera nein óþarfa, óviðeigandi eða móðgandi ummæli. Naglinn áskilur sér rétt til þess að eyða slíkum ummælum, að hluta eða öllu leyti. Slík ummæli geta einnig leitt til þess að lokað verði fyrir aðgang viðkomandi notanda og aðgangi hans eytt sbr. 21. gr.

13. Þóknun fyrir notkun / greiðslumöguleikar

Þóknunin er endurgjald Naglans fyrir notkun notenda á þjónustunni. Naglinn ábyrgist ekkert varðandi gæði þeirrar þjónustu sem veitt er í gegnum nagli.is. Naglinn er aðeins tól sem notendur geta nýtt sér til þess að koma á samningum sín á milli, halda utan um samskipti og skjöl ásamt því að leysa úr ágreiningi. Notendur bera fulla ábyrgð á sinni notkun á þjónustunni og afleiðingum þeirrar notkunar. Taka skal fram að þóknun sem greidd er til Naglans eru óendurkræf þó að ekki verði af framkvæmd verks.

Naglinn tekur ekki gjald fyrir birtingu á almennum verkum á nagli.is, en gjaldtaka er fyrir auglýst verk. Ef um auglýst verk er að ræða þá verður að greiða áður en verk er birt.

Sú þóknun sem Naglinn áskilur sér vegna þeirra samninga sem komast á í gegnum nagli.is er reiknuð sem hlutfall af heildarkostnaði verks í samræmi við gildandi gjaldskrá á hverjum tíma.

Þóknun Naglans fellur á gjalddaga um leið og kaupandi hefur samþykkt tilboð bjóðanda. Bjóðandi verður að greiða til Naglans þóknun vegna verksins áður en hann getur staðfest að hann muni standa við tilboð sitt og hefur hann þrjá daga frá þeim tíma er kaupandi samþykkti tilboðið. Ef bjóðandi greiðir ekki innan þriggja daga þá þá fær kaupandi tilkynningu um að hann þurfi að velja annan bjóðanda vegna verksins, sbr. 2. mgr. 10.gr. Eftir að seljanda hefur verið send tilkynning fellur niður krafa á hendur viðkomandi bjóðanda vegna verksins.

Naglinn áskilur sér rétt til þess að veita ítarlegri leiðbeiningar um framkvæmd greiðslu og þær leiðir sem færar eru á þeim tíma er greiðslur falla á gjalddaga.

Notendur lofa að aðhafast ekkert til að komast hjá því að greiða þóknun til Naglans vegna verka.

Greiðslur til Naglans fara fram í gegnum örugga greiðslumiðlun þriðja aðila, Naglinn því hvorki meðhöndlar né vistar kreditkortaupplýsingar notenda.

Um brot gegn þessari grein fer skv. ákvæðum 21. gr.

14. Áskriftarleiðir

Þeim notendum nagli.is sem hyggjast bjóða í verk og gerast kaupendur stendur til boða að kaupa vissar áskriftarleiðir sem veita þeim aðgang að aukinni þjónustu og/eða veita afslátt af þóknun. Naglinn áskilur sér rétt til þess að breyta þeim áskriftarleiðum sem í boði eru án fyrirvara. Þeir notendur sem þegar hafa keypt áskriftarleið sem breytt er verður tilkynnt um breytinguna með tölvupósti.

15. Tilkynningar með tölvupósti og textaskilaboðum í farsímanúmer

Af og til kann Naglinn að senda þér nauðsynlegar tilkynningar með rafrænum hætti vegna skráningar og aðgangs þíns eða notkunar á þjónustunni (t.d. þegar aðgangsupplýsingum er breytt) eða aðrar valkvæðar tilkynningar í tengslum við notkun þína á þjónustunni. Þegar aðgangur þinn að þjónustunni er stofnaður í fyrsta sinn ert þú skráður fyrir öllum valkvæðum tilkynningum. Þú getur síðan hvenær sem er breytt, afskráð eða skráð þig fyrir öllum tilkynningum. Af og til kann Naglinn að bæta við nýjum tegundum tilkynninga eða að fjarlægja tilteknar tegundir tilkynninga.

Rafrænar tilkynningar frá Naglanum verða sendar á netfangið sem þú gafst upp vegna aðgangs þíns að nagli.is. Þér kann líka að vera boðið að fá tilteknar tilkynningar sendar sem textaskilaboð í farsímanúmerið þitt.

Þar sem tilkynningar eru ekki dulkóðaðar munu þær aldrei innihalda lykilorðið þitt. Í þeim tilfellum sem þú gleymir lykilorði þínu getur þú þó fengið sendan hlekk á netfang þitt á slóð sem gerir þér kleift að búa til nýtt lykilorð.

Tilkynningar geta innihaldið netfangið þitt (þegar þér er sendur tölvupóstur), farsímanúmer (þegar þér eru send textaskilaboð í farsímanúmer). Allir sem hafa aðgang að tölvupósti þínum munu geta séð innihald þessara tilkynninga. Þú getur hvenær sem er valið að skrá þig úr öllum valkvæðum tilkynningum.

Þú skilur og samþykkir að öllum tilkynningum sem þér eru sendar með notkun þjónustunnar gæti seinkað og / eða ekki borist þér af ýmsum ástæðum. Naglinn reynir eftir fremsta megni að tryggja að tilkynningar berist þér fljótt og örugglega en ábyrgist á engan hátt að tilkynningar berist þér eða að tilkynningar innihaldi ávalt nýjustu og / eða réttar upplýsingar. Þú samþykkir að Naglinn ber enga skaðabótaskyldu vegna tilkynninga sem berast seint eða alls ekki, vegna villna í efni tilkynninga eða vegna ákvarðana sem þú eða þriðji aðili tekur eða tekur ekki vegna tilkynninga sem sendar eru frá Nagli.is.

16. Hugverkaréttindi Naglans

Allt innihald vefsvæðisins nagli.is, þar með talið útlitshönnun (t.d. texti, grafík, myndir, vörumerki), ljósmyndir, hugbúnaður, ritstýrt efni, tilkynningar og annað efni er varið samkvæmt höfundarréttar- og vörumerkja lögum á Íslandi og annars staðar. Innihald nagli.is er eign Naglans eða notað samkvæmt leyfi frá hugbúnaðar-, gagna- eða efnisveitum sem Naglinn á í viðskiptasambandi við. Naglinn veitir þér leyfi til að skoða og nota nagli.is samkvæmt þessum skilmálum. Þú mátt eingöngu sækja eða prenta afrit af upplýsingum og efni á nagli.is til þinna persónulegu nota sem ekki eru í fjárhagslegum tilgangi í samræmi við II. kafla höfundalaga. Öll dreifing, endurútgáfa eða rafræn afritun af innihaldi Nagli.is, hvort heldur sem er að hluta til eða heild, eða í einhverjum öðrum tilgangi er þér með öllu óheimil nema með skriflegu samþykki Naglans.

Um brot gegn þessari grein fer skv. ákvæðum 21. gr.

17. Aðgangstakmarkanir

Þú samþykkir hér með að þú munt ekki nota neins konar sjálfvirkan hugbúnað, forrit eða annars konar sjálfvirkar aðferðir til að fá aðgang, afrita eða fylgjast með nokkrum hluta af vefsvæði Nagli.is nema með skriflegu leyfi Naglans og / eða ef slík þjónusta hafi verið keypt af Naglanum.

Þú samþykkir einnig að þú munt ekki nota neins konar forrit, hugbúnað eða annars konar aðferðir til að heimsækja, nota eða leita að gögnum á vefsvæði nagli.is nema með almennum vöfrum (t.d. Firefox eða Microsoft Internet Explorer) og almennum leitarvélum (t.d. Google eða Bing).

Þú samþykkir einnig að þú munt ekki senda nokkurs konar skrá eða gögn á vefsvæði Naglans sem gæti flokkast sem einhverskonar tölvuvírus, tölvuormur eða tróju hestur eða inniheldur einhverskonar skaðlega eiginleika eða sem gæti á einhvern hátt truflað eðlilega virkni nagli.is eða þjónustunnar.

Þú samþykkir ennfremur að þú munt ekki reyna á nokkurn hátt að sækja, birta eða greina (e. reverse engineer) á annan hátt undirliggjandi forritskóða (e. source code) út frá þeim hugbúnaði sem er notaður á nagli.is. Ef notandi fær að öðrum ástæðum aðgang að undirliggjandi forritunarkóða, s.s. vegna bilunar þá ber honum að tilkynna slíkt til vefstjóra (admin@nagli.is). Um slík tilvik gilda jafnframt ákvæði 1. málsliðar.

Um brot gegn þessari grein fer skv. ákvæðum 21. gr.

18. Efni sem þú sendir til nagli.is

Þjónustan felur í sér að notendum er gert kleift að senda inn efni á útboðsvef, spjallþræði, blogg og önnur svæði innan nagli.is sem innihalda efni frá notendum. Þú samþykkir hér með að fylgja eftirfarandi reglum þegar þú sendir hvers konar texta, gögn eða efni til nagli.is:

 • Þú ert ábyrg(ur) fyrir öllu efni sem þú sendir til nagli.is.

 • Með því að senda inn efni þá ábyrgist þú að þú hefur öll nauðsynleg réttindi og leyfi til að senda inn efnið og að þú veitir Naglanum ótakmarkaðan afnota- og ráðstöfunarrétt yfir öllum framlögum þínum um alla framtíð, m.a. rétt til birtingar, útgáfu, almennra sýninga, fjölföldunar, leigu, útlána, sölu og dreifingar með hverjum þeim tæknilega hætti sem mögulegur er í dag eða fundinn verður upp síðar, án þess að Naglinn beri að greiða þér neinar greiðslur vegna slíkrar dreifingar, sölu, leigu eða annarrar nýtingar. Hugverkaréttarheimildir þessar ná yfir allar gerðir hugverka og öll miðlunarform. Jafnframt hefur Naglinn ótakmarkaðan rétt til þess að nota og hafa allar fjárhagslegar nytjar af framlögum þínum í heild eða að hluta með hverjum þeim hætti sem hann kýs. Naglinn hefur einnig rétt til þess að láta þýða allt efni á erlend tungumál. Þú veitir líka hér með hverjum notanda nagli.is leyfi til að nálgast framlög þín í gegnum nagli.is og til að skoða, afrita, dreifa, útbúa afleidd verk, sýna, og nota þín framlög í samræmi við þessa skilmála, reglur Naglans og þá virkni sem er að finna á vefsvæði nagli.is.

 • Þér er ekki heimilt að senda inn efni sem gæti talist móðgandi, sært blygðunarkennd, eða efni sem inniheldur persónuupplýsingar eða fjallar um einkamál fólks. Þér er ekki heimilt að senda inn gögn, myndir, hugbúnað eða efni sem er ólöglegt, ógnandi, klámfengið, fordómafullt, hvetur til glæpsamlegrar hegðunar, eða er á annan hátt óviðeigandi.

 • Þér er ekki heimilt að senda inn nokkurs konar efni, myndir eða forrit sem brjóta á eigna-, hugverka- eða höfundarétti annarra.

 • Þér er ekki heimilt að trufla notkun annarra notenda sem nýta sér þjónustuna, t.d. er þér ekki heimilt að trufla eðlileg samskipti á gagnvirkum svæðum á nagli.is, eyða eða breyta efni sem aðrir hafa sent inn, gera eitthvað sem veldur óeðlilega miklu álagi á þjónustuna og tölvukerfið sem hún keyrir á eða nokkuð annað sem truflar eðlilegt aðgengi annarra notenda að þjónustunni.

 • Nema annað sé sérstaklega tekið fram á þar til gerðum svæðum innan nagli.is, er þér ekki heimilt að óska eftir, selja, auglýsa eða kynna nokkra vöru eða þjónustu, hvort sem er gegn gjaldi eður ei, né senda inn beiðni um þátttöku í góðgerðarmálum, undirskriftasöfnunum, eða viðskiptatækifærum (þar með talið atvinnutilboðum).

 • Þér er ekki heimilt að afrita eða nota persónuupplýsingar eða samskiptaupplýsingar um aðra notendur án þeirra leyfis.

Um brot gegn þessari grein fer skv. ákvæðum 21. gr.

19. Takmörkun ábyrgðar

Naglinn ábyrgist ekkert um eiginleika eða notkun á Nagli.is. Notendur skrá sig og nota þær þjónustur sem í boði eru á nagli.is á eigin ábyrgð.

Naglinn ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem orsakast beint eða óbeint vegna bilunar í tölvubúnaði og/eða hugbúnaði fyrirtækisins eða notanda eða af öðrum orsökum, sem kunna að valda því, að upplýsingar séu ekki réttar eða að notandi nái ekki að tengjast þjónustunni. Naglinn ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði, tengingu við veraldarvefinn, þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við vefsvæði Naglans, vafra eða stýrikerfi notanda eða tölvukerfi Naglans, eða af öðrum þeim orsökum sem kunna að valda því að aðgerðir á nagli.is geta ekki farið fram eða verða með öðrum hætti en til var ætlast s.s. vegna tæknibilana, villna í gögnum eða truflana í rekstri tölvukerfa. Naglinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun notanda eða annars aðila með eða án umboðs notanda. Naglinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til rangra aðgerða notanda eða annars aðila. Naglinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til utanaðkomandi atvika t.d. bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h. Ennfremur ef rekja má tjónið til atvika sem stafa af náttúruhamförum, styrjöldum, verkföllum eða vegna atriða sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure).

Naglinn áskilur sér rétt til að meina aðilum að stofna og eða nota aðgang að nagli.is.

20. Úrlausn ágreiningsmála

Naglinn býður aðilum sem gengið hafa inn í samning um framkvæmd verkefnis á nagli.is að nýta sér úrlausnarkerfi Naglans til þess að leysa úr ágreiningi.

Með því að nýta þér úrlausnarkerfi Naglans þá viðurkennir þú og gerir þér ljóst að: 1) Naglinn veitir ekki lögfræðiráðgjöf,
2) Naglinn er ekki aðili að ágreiningi aðila og 3) ef þú kýst að leita lögfræðilegrar ráðgjafar, þá munir þú sækja slíka þjónustu frá óháðum lögfræðingi/lögmanni sem lokið hefur fullnægjandi menntun og/eða hefur fullnægjandi réttindi til þess að veita slíka ráðgjöf.

Þú samþykkir að halda Naglanum að skaðlausu vegna ágreiningsmála sem fara í gegnum úrlausnarkerfi Naglans og að þú munir ekki fara fram á neinar bætur frá Naglanum vegna notkunar á úrlausnarkerfinu.

Ef þú stofnar ágreiningsmál í gegnum nagli.is, þá mun gagnaðili fá tilkynningu þess efnis senda, bæði í innhólf sitt á nagli.is og í tölvupósti, þar sem honum er gefinn fimm daga frestur til þess að samþykkja kröfu þína eða koma með andsvör.

20.1. Samningalota

Samningalotan er 15 daga tímabil þar sem notendur geta leyst úr ágreiningi um afslátt af kaupverði eða viðbótargreiðslu. Á meðan á lotunni stendur geta aðilar sent tilboð sín á milli innan samningalotukerfis. Lotunni telst lokið og ágreiningur leystur er aðili hefur samþykkt tilboð gagnaðila. Ef aðilar hafa ekki komist að samkomulagi að 15 dögum liðnum frá stofnun ágreiningsmáls þá telst samningalotu lokið án þess að aðilar hafi náð að leysa ágreining.

20.2. Sáttamiðlun

Ef ágreiningsmál er stofnað og aðilar hafa ekki getað komist að samkomulagi um úrlausn í samningalotu skv. 20.1. gr., þá býðst aðilum gegn greiðslu að fá sáttamann sem getur á hlutlausan máta aðstoðað aðila við að komast að niðurstöðu. Naglinn mun ekki leggja til sáttamann heldur aðeins tengja aðila við sáttamann í gegnum fagsamtök sáttamanna, Sátt, eða félag sáttalögmanna. Reglur um framkvæmd sáttamiðlunar og hæfisreglur fara eftir ákvæðum viðkomandi samtaka/félags.

Ef aðilar geta ekki komist að samkomulagi með aðstoð sáttamanns þá breytist staða viðkomandi verkefnis í “fryst” og hefur þá stöðu þangað til aðilar hafa komist að samkomulagi eða bindandi niðurstaða liggur fyrir í málinu.

20.3. Álitsgerð

Ef aðilar svo kjósa geta þeir, gegn greiðslu kostnaðar m.v. gjaldskrá á hverjum tíma, óskað eftir hlutlausri álitsgerð. Álitsgerð skv. greininni telst ekki gerðardómur í skilningi laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, er ekki aðfararhæfur og ekki bindandi fyrir aðila.

Álitsgerð er fljótleg og ódýr leið til þess að fá óháðan þriðja aðila til þess að leggja fram tillögu að lausn sem að hans mati er sanngjörn með tilliti til málavaxta í ágreiningsmáli.

Ákvæði 5-6. gr. laga um meðferð einkamála gilda að breyttu breytanda um vanhæfi álitsgerðaraðila skv. þessari grein.

Álitsgerðaraðili leggur til lausn í málinu sem að hans mati er sanngjörn miðað við málavexti og þau gögn sem aðgengileg eru og/eða lögð hafa verið fram vegna málsins.

Aðilar málsins fá senda tillögu álitsgerðaraðila að lausn ásamt rökstuðningi til samþykkis eða höfnunar í gegnum samskiptakerfi nagli.is. Þeir hafa 7 daga til að bregðast við tillögunni. Að þeim tíma liðnum eða ef annar aðili hafnar tillögu að lausn telst úrlausnarkerfi Naglans formlega lokið án þess að aðilar hafi getað komist að samkomulagi. Í þeim tilfellum helst staða verkefnis „fryst“ þangað til aðilar hafa komist að samkomulagi eða bindandi niðurstaða liggur fyrir í málinu.

21. Lokun aðgangs og gildistími þessa skilmála

Þessir skilmálar gilda um alla notkun þína á nagli.is. Þú getur lokað aðgangi þínum að nagli.is með beiðni um slíkt undir notendastillingum. Þegar þú lokar aðgangi þínum eyðir Naglinn öllum þínum gögnum og upplýsingum ef þú óskar þess. Naglanum er hvenær sem er, og án fyrirvara, einhliða heimilt að loka aðgangi þínum að nagli.is og eftir atvikum eyða honum. Verður þér þá send tilkynning þess efnis á netfangið sem þú gafst upp við skráningu, t.d. ef þú verður uppvís að misnotkun eða hefur brotið í bága við eitthvert ákvæði þessara skilmála, eða ef þú hefur hegðað þér á þann hátt að augljóst sé að þú ætlir ekki eða getir ekki uppfyllt ákvæði þessa skilmála. Ef grunur vaknar að um lögbrot sé að ræða þá áskilur Naglinn sér rétti til tilkynna slíkt til yfirvalda.

22. Breytingar á skilmálum

Naglinn kann að breyta þessum skilmálum af og til. Komi til breytinga verða allar breytingar við þessa skilmála aðgengilegar á vefsvæði nagli.is og verða notendur að samþykkja hinu nýju skilmála til að nota nagli.is áfram. Komi til breytinga verður þér, næst þegar þú ferð inn á vefsvæði Naglans, gefinn kostur á að samþykkja breytta skilmála. Ef þú kýst að samþykkja ekki breytta skilmála munt þú ekki lengur geta nálgast þjónustu Naglans og verður þér jafnframt gefin(n) kostur á að loka aðgangi þínum að nagli.is.

23. Varnarþing, ágreiningur aðila og almenn ákvæði

Skilmálar þessir lúta íslenskum lögum. Ef eitthvert ákvæði skilmála þessara verður dæmt ógilt, ólöglegt eða óhæft til fullnustu, dregur það ekki á neinn hátt úr gildi, lögmæti eða fullnustuhæfi annarra ákvæða skilmálanna. Þú samþykkir að ef Naglinn nýtir sér ekki einhvern rétt sinn sem hlýst af þessum skilmálum að þá skal ekki túlka það sem afsal þess réttar. Rísi mál út af skilmálum þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.